Lögreglan

Skrifað 1 April 2011


Skessuhorn - lausn fengin í löggæslumálum Dalamanna
Vart hefur orðið við gríðarlegri óánægju með breytingar á tilhögun löggæslumála í Dalabyggð en fjárskortur setur sýslumannsembættinu stólinn fyrir dyrnar. Framundan er vaxandi umferð um héraðið og hefur lögreglan ákveðið að bregðast við því með tiltækum ráðum án þess þó að kostnaður fari úr böndunum. Keypt hefur verið færanlega lögreglustöð og henni komið fyrir í námunda við KM þjónustuna við Vesturbraut í Búðardal. Opið hús verður í nýju færanlegu lögreglustöðinni í dag milli klukkan 11 og 15. "Þetta er ágætur skúr með öllum þeim þægindum sem þarf til skýrslutöku og stuttri skammtíma vistun fanga. Að vísu er stöðin ekki upphituð enda einungis gert ráð fyrir að hafa hana á þessum stað yfir sumartímann. Þá er gert ráð fyrir að hægt verði að færa stöðina milli staða þangað sem álagið og þörfin er mest hverju sinni, t.d. á Landsmót hestamanna," sagði talsmaður lögreglunnar sem Skessuhorn ræddi við í gær. Þá hefur sýslumannsembættið fengið tuttugu pappalöggur sem til hafa verið frá tíð Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra og verðum þeim raðað með jöfnu millibili við Vesturbraut í Búðardal til að draga úr umferðarhraða. "Við leitum allra leiða til hagræðingar og eru þessar aðgerðir meðal þess sem gripið verður til," sagði fulltrúi sýslumanns sem Skessuhorn ræddi við.

- Afritað af fréttavef Skessuhorns www.skessuhorn.is 1. apríl 2011 :o)