Sunnudaginn 5. júlí var dráttarbíll frá Króki í Reykjavík sendur að Laugum í Sælingsdal til að sækja fellihýsi með bilaðan hjólabúnað. Það vildi ekki betur til en svo að Króksbíllinn festist utan vegar meðan á aðgerðum stóð. Króksmenn settu sig í samband við lögreglu sem kallaði út kranabíl frá KM þjónustunni í Búðardal, stoltan GMC af árgerð 75. Kalli fór á vettvang á Krana gamla og spilaði dráttarbíl Króks upp svo þeir gætu lokið ætlunarverki sínu og fellihýsið komst að lokum til Reykjavíkur.
Laugardaginn 4. júlí fór Kalli af stað á kranabílnum að sækja bíl í nágrenni Lauga í Sælingsdal. Þar var umræddur bíll farinn að haga sér einkennilega og bílstjórinn var þá fljótur að átta sig á því að hann hafði tekið rangt eldsneyti í Búðardal. Hann hafði dælt bensíni á díselbílinn, margar krónur sem fóru fyrir lítið þar. Bíllinn var fluttur í Búðardal og dælt af honum í KM þjónustunni á næsta virka vinnudegi. Svona mistök virðast alltof algeng og það lítur út fyrir að þeim hafi fjölgað eftir að bensín- og díseldælur voru settar undir sama hatt í stað þess að vera aðskildar áður fyrr. Það má velta því fyrir sér hvort bensínstöðvar gætu dregið úr þessum kostnaðarsömu mistökum með því að auka við merkingar á eldsneytistönkum.
Bílvelta varð við Dunk í Hörðudal föstudaginn 3. júlí s.l. Útkall barst KM þjónustunni frá lögreglu og Unnsteinn fór á vettvang og sótti bifreiðina sem síðar var flutt með vöruflutningabíl KM til Reykjavíkur.
Útkall barst KM þjónustunni vegna bílveltu við Sauðhús í Laxárdal. Unnsteinn fór á Krana gamla og sótti bifreiðina, Toyota Land Cruiser, sem verður send áfram til Reykjavíkur með vöruflutningum KM þjónustunnar.
Erlendir ferðamenn lentu í því óhappi að húsbíll þeirra bilaði á Hnjóti á Vestfjörðum. Beiðni barst Unnsteini í KM um að fara með bílaleigubíl vestur og ná í bilaða bílinn. Þegar komið var á leiðarenda fengu ferðamennirnir bílaleigubílinn en bilaði bíllinn var töluvert stærri en upplýsingarnar gáfu sem lágu fyrir í byrjun ferðar. Því var vélaflutningavagn fenginn frá Patreksfirði sem fór með bílinn til Reykjavíkur í næstu áætlunarferð þaðan.
Það má með sönnu segja að það hafi verið heppni í óheppni að ekki fór verr þegar spindilkúla gaf sig á Honda bifreið á Steinadalsheiði. Spindilkúlan var svo slitin að hún fór í sundur og sleit bremsuslönguna með þeirri afleiðingu að stýrisbúnaður og bremsur bifreiðarinnar urður óvirkar. Svo vildi til að ökumaður var á leið um bratta brekku á lítilli ferð þannig að bifreiðin hélst á veginum þegar atvikið átti sér stað. Spila þurfti bílinn upp á pall aftan í kranabíl og fór Binni með hann til viðgerðar í KM þjónustuna.
KM þjónustan auglýsir sumaráætlun vöruflutninga. Vakin er athygli á breyttum brottfarartíma á fimmtudögum auk þess sem bætt er við vöruferðum á föstudögum í sumar. Sumaráætlunin gildir út ágústmánuð.
KM þjónustan óskar Dalamönnum og landsmönnum öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.
Í Búðardal sá þjóðhátíðarnefnd Lions fyrir hátíðardagskrá sem heppnaðist vel að vanda. Dagskráin hófst á skrúðgöngu þar sem skátar í skátafélaginu Stíganda voru fremstir í fylkingu ásamt Jóa löggu. Eftir skrúðgöngu tók við hátíðardagskrá í Dalabúð þar sem m.a. kom fram nýútskrifaður grunnskólanemi í hlutverki fjallkonunnar, Elín Margrét Böðvarsdóttir. Að hátíðardagskrá lokinni var kaffihlaðborð að hætti Lionsmanna þar sem menn gátu endurnýjað orkubirgðir sínar eftir mikil hlaup í fjölskylduratleik. Við nýja leikskólann voru hoppukastalar fyrir unga fólkið og þar voru einnig bændur frá Erpsstöðum að selja KJAFT-ÆÐI, heimagerðan rjómaís (sjá nánar á www.erpsstadir.is).
Bakaríið Brauðval opnaði að nýju í Búðardal í dag. Dalamenn fögnuðu opnun og sitja nú sveittir í sætabrauðsáti í sól, hlýindum, rigningu og sumri. Ingimar bakari hefur varla haft undan við að framleiða og er að eigin sögn mjög ánægður með viðtökurnar. Hann stefnir að því að halda opnu fram á haust, a.m.k. til að byrja með. Opnunartími virka daga er kl. 9:00-18:00 en laugardaginn 27. júní verður Brauðval 20 ára og af því tilefni verður opið þann dag og í kjölfarið hefst helgaropnun sem varir fram í ágúst.
KM þjónustan fagnar opnun Brauðvals enda miklir stuðningsmenn bakstursiðnaðarins. Til hamingju Ingimar og fjölskylda og allir sætabrautsdrengir/stúlkur!
Útkall var vegna bifreiðar sem hafði bilað við Skriðuland í Saurbæ. Hjólbarðar bifreiðarinnar stóðu fastir þar sem olían var farin af gírkassanum. Þetta var annað útkallið þennan daginn og svo virðist sem Binni hafi setið fastur í Krana gamla því hann sá einnig um þetta útkall.