Nú fara áburðarflutningar á fullt, keyrt er frá Grundartanga, Hvammstanga en þó aðallega frá Hólmavík. Tekin var skorpa á laugardagin 1. maí en þá fóru Binni, Tobbi og Kalli á þremur Scanium og gerðu góðan túr. Var borðað í Baulunni og kaffi hjá Gunnari og Kristjönu á Hólmavík. Myndir í maí möppu úr þeirri ferð.
Þá er komið sumar þótt enn virðist vera nokkuð í sumarstemninguna í veðráttunni. Það má segja að dagur og nótt hafi frosið saman í Dölum og samkvæmt gamalli hjátrú ætti það að gefa okkur gott sumar.
Gleðilega páska. Við erum með myndir af gosinu fræga á Fimmvörðuhálsi en þeir félagar Tobbi og Unnsteinn gerðu sér ferð þann 1. apríl s.l. til að skoða "túristagosið". Hægt er að sjá myndir frá þeim í apríl myndamöppu.
Í tilefni af 10 ára afmæli KM þjónustunnar er viðskiptavinum boðið að fagna með okkur laugardaginn 20. mars n.k. og þiggja léttar veitingar að Vesturbraut 20, kl. 19:00-22:00. Það verður kósý stemning og boðið upp á lifandi tónlist að hætti Dalamanna. Opið verður á Bjargi eftir klukkan 22:00.
KM þjónustan átti 10 ára afmæli 1. mars og því var fagnað s.l. sunnudagskvöld með því að bjóða starfsmönnum og mökum að Hraunsnefi í Borgarfirði. Sveinn á Staðarfelli sá um að koma mannskapnum milli staða, en á Hraunsnefi átti hópurinn saman góða stund yfir mat og drykk. Þann 20. mars er stefnt að því að hafa opið hús í húsnæði KM þjónustunnar þar sem sveitungum og öðrum viðskiptavinum verður boðið upp á léttar veitingar, nánar auglýst síðar. Hægt er að sjá myndir frá Hraunsnefi í myndamöppu marsmánaðar.
Ófært í Reykhólasveit við Geiradalsá (SMUGUNNI eins og menn kalla hana). Bens frá Ingileifi var pikkfastur í skafli en bílstjórinn var með jarðýtu á pallinum og notaði hana til að ýta snjónum frá og draga svo Bensinn upp. Það tók um sjö klukkutíma að ná honum upp (myndir í febrúarmöppu).
Slökkviliðsæfing var í Búðardal 20. febrúar þar sem allir bílar voru prófaðir, slöngur tengdar, vatni og froðu sprautað. Allt gekk vel og slökkviliðsskúrinn var þrifinn að lokum. Sjá myndir í myndalbúmi (febrúarmappa).
Bílvelta var við Valþúfu á föstudaginn 19. febrúar. Lögreglan bað um kranabílinn þar sem Opel bíll hafði hafnað 18 metum fyrir utan veg. Spila þurfti bílinn upp og fara með hann í KM. Sjá myndir í myndalbúmi (febrúarmappa).
Það var mikið um að vera hjá ungmenninu á öskudaginn og margir flottir hópar sem létu sjá sig hjá okkur í KM þjónustunni. Kalli reyndi eftir fremsta megni að stökkva frá skylduverkum (!) til að mynda þetta skrautlega lið og hægt er að sjá þá sem festust á mynd í febrúarmöppunni.
Þorrablót Laxdæla tókst með eindæmum vel, skemmtiatriði gengu út á það sem menn hafa gert af sér á síðasta ári en þó var víða aukið í. Að sjálfsögðu var þar unnið með héraðslögreglumennina okkar Geira og Grana, hinn síunga vinnustað Samkaup, tíð vinnustaðaskifti, verktakana Gilbert, Einar, Jóa og Gunna Jóhanns í sínum bílaleikjum, nýbyggingar í Snobbhill (Stekkjarhvammi), klaufabárðana Viðar og Pétur, sveitastjórnina, Bjarna á sprungnu dekki, KM þjónustuna og margt, margt fleira. Þetta var allt í boði Sýslumannsins í Búðardal, hvort sem hann tekur undir það eða ekki. Eins og við er að búast á góðu blóti var gott úrval matar og var það Freyja Ólafsdóttir sem sá um matinn. Myndir frá blótinu eru komnar í myndaalbúm.